Stefania skrifar Flokkað undir Lífsstíll & Heilsa.

Stefanía – Óttinn við að eldast

Það eru forréttindi að eldast… Er það ekki?

Mér fannst alltaf frábært að vera febrúarbarn. Ég var fyrst vina minna til þess að fá bílpróf, verða fjárráða og geta verslað áfengi. Þegar ég komst yfir tvítugt var þetta ennþá allt í góðu, en þegar ég náði 25 ára aldri þá birtist óvæntur kvíðahnútur í maganum þegar afmælisdagurinn nálgaðist. Ég er allt í einu farin að segja „Ég er fædd ´91“ í stað þess að segja „Ég er 26 ára“ (og bráðum 27!).

Allt í einu getur maður ekki endilega borðað ruslfæði í öll mál og samt líða vel eða vakað heilu næturnar án þess að verða gjörsamlega gagnslaus daginn eftir. Þú þarft orðið á gleraugum að halda. Þú rýnir ekki lengur í spegilinn eftir bólum heldur hrukkum – sem ekki verður bjargað með tea tree olíu. Hvað þú ætlar að verða þegar þú ert stór er ekki lengur hugsun sem hægt er að dagdreyma um og fara síðan að brasa eitthvað tilgangslaust, því að þetta er orðin spurningin um það hvað þú ætlar að gera núna.

Ég veit að þessi hugsun er ekki óalgeng og að vissu marki alveg skiljanleg, breytingar hafa áhrif á líðan okkar, og óhagganlegar breytingar ekki síður. Ég þarf á því að halda að minna mig á hversu dýrmætt það er að vera til í þessum heimi og að hvert ár er gjöf.

Gjöf sem að ekki allir fá.

Ég skrifa þetta fyrir mig, og fyrir hverja þá manneskju sem finnur fyrir kvíða yfir því að verða árinu eldri, vegna þess að það er nauðsynlegt að minna sig á það að með hverju ári sem líður ertu vitrari, þú ert reynslumeiri, þú hefur lært nýja hluti og uppifað aðstæður sem hafa gert þig að þeirri manneskju sem að þú ert í dag og verða þér leiðarvísir fyrir þá manneskju sem að þú munt verða. Mikilvægast af öllu er að þú ert búin, og munt halda áfram, að eyða tíma með fólkinu sem að þú elskar. Þú ert á lífi á þessari jörð og þú getur notað þann tíma sem þú ert hér til þess að gera heiminn að betri stað, til þess að vera til staðar fyrir þá sem að þú elskar.

Vertu þakklát/ur fyrir þetta líf sem þér er gefið og mundu þessa staðreynd: Það eru forréttindi að eldast.

Stefanía