Stefania skrifar Flokkað undir Menning & Listir.

Stefanía – Skólakerfið okkar er gallað

Ágúst er kominn og skólinn er byrjaður. Ég er ein af þeim sem að elskar að læra. Ég hef alltaf verið heilluð af bókum og að komast í tæri við hvers kyns nýjar upplýsingar. Ég var krakkinn sem kom mér fyrir í horni inni á bóksafninu þar til starfsmennirnir létu mig vita að mamma hefði verið að hringja og að það væri kominn matur heima.

Hins vegar tel ég skólakerfið í heild vera meingallað.

Forgangsröðunin sem er gegnum gangandi í heiminum um hvað er „best“ að læra, hvers konar vitneskja það er sem er talin aðdáunarverð og önnur sem talin er tilgangslaus.

Skólakerfið og uppsetning þess er búin að vera meira og minna eins í meira en öld. Nú lifum við á tímum þar sem stórtækar breytingar eiga sér stað á degi hverjum en engum dettur í hug að það sé tími til kominn að líta gagnrýnum augum á þessa stofnun sem að við eyðum meira en tugi ævi okkar sem partur af.

Við erum einstaklingsmiðað samfélag. Hvort sem það sé gott eða slæmt má lengi deila um, en það er svo engu að síður. Við höfum tekið þróun einstaklingsins fagnandi og þeirri hugmynd að þér séu allir vegir færir. Þetta kennum við börnunum okkar en á sama tíma setjum við þau í stofu fulla af borðum sem er raðað fyrir framan kennara sem bannað er að gagnrýna, til þess að apa upp það námsefni sem talið er nauðsynlegt fyrir þau að læra með þeirri tuggu að þetta muni „gagnast þér í framtíðinni“.

Sumum hentar þetta kerfi, en hvað með alla hina? Hvað með íþróttamanninn eða dansarann sem þarf að bæla niður orkuna sem í sér býr til þess að sitja á stól í átta tíma á dag? Hvað með listamanninn eða söngvarann sem fær aðeins einn tíma á viku til þess að virkja þá hæfileika sem í honum býr? Tískuiðnaðurinn skilar milljörðum en saumatímar eru aukaatriði. Við erum svo ótrúlega hæfileikarík á mismunandi sviðum en í stað þess að fjölbreytileikanum sé fagnað eru börn sett í litla kassa þar sem þau fá að heyra að þau muni aldrei verða listamenn, tónlistarmenn eða dansarar og ættu því að einbeita sér að náttúruvísindum til þess að eiga góða framtíð.

Hefur engum dottið í hug að ástæða þess hve erfitt sé að verða afreksfólk á þessum sviðum sé vegna skorts á lærdómi og hvatningu? Hvað ætli það séu margir einstaklingar sem skarað gætu fram úr á þessum sviðum en eru fastir í meðalstöðu í starfi sem þau hafa enga ástríðu fyrir, vegna þess eins að þeim var kennt að þetta væri eina vitsmunalega leiðin frá því að þau voru sex ára gömul?

Hver vill búa í veröld án tónlistar, íþrótta, listar og sköpunnar?

Skólakerfið okkar þarf að breytast og viðhorf okkar gagnvart námi. Börnin eru framtíðin. Búum til betri heim fyrir þau til þess að lifa og dafna í.

Stefanía