Stefania skrifar Flokkað undir Menning & Listir.

Stefanía – Stundum þarftu bara að þegja og gera eins og þér er sagt

Skemmtileg fyrirsögn, en allavega

Ég reyni að lifa í þakklæti og vera jákvæð gagnvart heiminum en ég er einnig þannig gerð að ég hef endalaust af skoðunum á öllu milli himins og jarðar – og þær eru mis jákvæðar. Mér finnst nefnilega að margt mætti betur gera, hvað varðar skóla, vinnu, stjórnmál og flest annað.

Um daginn var ég að velta mér upp úr einhverju og hrista hausinn yfir fáfræði þeirra sem áttu í hlut. Ég taldi mig mun betur til þess fallna að sjá um ákvarðanatökur á hinum ýmsu sviðum, alveg óháð því hvort að ég hefði þá sérfræðiþekkingu sem til þarf. Ég kom að sjálfri mér að halda því fram að heimurinn myndi virka mun betur ef að fólk myndi bara gera það sem ég segði þeim.

Hvaða ruglaða stjórnsemi er hér á ferð?

Gagnrýnin hugsun er mikilvæg og allir hafa rétt á að láta rödd sína heyrast. Þetta eru sönn og mikilvæg orð en ég þarf líka að horfast í augu við það að ég hef sjaldan fyrir því að láta skoðanir mínar hafa gagngera, jákvæða breytingu. Algengara er að þær endi með tuði.

Þegar kemur að stofnunum eða fyrirtækjum verð ég að muna að ég á ekki þennan skóla, þetta er ekki mitt fyrirtæki eða mín verkefni. Ég er heldur ekki tilneydd til þess að vera þáttakandi heldur er það mitt val. Ef að mér finnst að eitthvað mætti betur fara þá get ég rætt við viðkomandi aðila, en ég er svo sannarlega ekki að fara að bæta neitt með því að kvarta og kveina. Ég get talað um hlutina og tjáð mína skoðum en í lokin er það undir þeim sem völdin hafa, sem eiga skólana og fyrirtækin (og þótt ótrúlegt sé, hafa sínar eigin skoðanir) að taka ákvarðanir um hvernig hlutunum sé hagað. Ég hef þá val um að samþykkja þá niðurstöðu eða ganga burt frá borði.

Þetta á líka við um fólkið í lífi mínu. Ég hef engann rétt til þess að krefjast þess að einhver fari að mínum ráðum, sama hversu góð þau kunna að vera. Hver einstaklingur hefur sinn rétt til þess að taka ákvarðanir og það er eitthvað sem þarf að virða. Þú þarft ekki að samþykkja ákvarðanir annara en þú kemur heldur engu góðu í verk með því að tuða eða tala niður til viðkomandi.

Mér kemur nefnilega ekki allt við, ég ræð ekki öllu og ætti heldur alls ekki að gera það. Það eru oft ástæður á bak við ýmsa hluti sem að maður hefur ekki hugmynd um en í langflestum tilvikum er fólk að reyna sitt besta. Leitumst við að vera skilningsrík og hjálpsöm án þess að falla í gryfju stjórnseminnar.

Ef þú hefur ekki eitthvað gott að segja…

Stefanía

Instagram & snapchat: stefaniabergs