Stefania skrifar Flokkað undir Lífsstíll & Heilsa.

Stefanía – Tilfinningalegt heilbrigði

Í dag er mikil áhersla lögð á heilbrigði. Aðsókn í líkamsrækt er gífurleg, veitingastaðir sem leggja áherslu á lífrænan mat birtast í meira mæli. Hillur matvörubúða eru fullar af próteinum, trefjum og vítamínum. Við kaupum skrefateljara og erum með öpp í símanum sem minna á hreyfingu og vatnsinntöku.

 

En hvað með okkar tilfinningalegu greind, okkar tilfinningalega heilbrigði?

Við látum öll stjórnast af tilfinningum okkar. Jafnvel það fólk sem telur sig réttilega einstaklega skynsamt tekur flestar af ákvörðunum sínum vegna þess hvaða tilfinningar stjórna hugsunum þeirra á hverjum tíma. Ég get ekki talið skiptin sem að ég hef hugsað með sjálfri mér: afhverju í ósköpunum gerði ég þetta?

Stór hluti af þeim ákvörðunum sem við tökum stafar af þörfinni fyrir samþykki.

Mikilvægi þess að vera samþykkt og að vera elskuð. Af fólkinu í kring um okkur, af samfélaginu sem að við erum hluti af og frá ókunnugu fólki á samfélagsmiðlum. Það er búið að stimpla því inn í okkur að með því að öðlast þetta samþykki eða þessa ást að þá verðir þú hamingjusamari og betri manneskja. Það sem einkennir þessa þrá er mikilvægi þess að einhver ANNAR elski þig. Að vilja þetta samþykki frá umheiminum er mjög eðlilegur hlutur, en það er annað að þurfa það. Það er sérstaklega mikilvægt að efla sjálfstraust í heiminum sem við lifum í dag þar sem margir meta eigið virði út frá like-um á Instagram eða fylgjendum á snapchat. Að vera sátt í eigin skinni óháð utanaðkomandi viðhorfi getur auðveldað lífið til muna.

Reiði, gremja og biturð eru einnig sterkar tilfinningar. Það er ákveðinn kraftur í þeim sem er ástæða þess að fólk dvelur í gremjunni, setur upp veggi og lokar sig frá öðrum. Reiðin hefur sprengikraft en honum fylgir líka kæruleysi sem endar í vanhugsuðum ákvörðunum og eftirsjá. Það er mikilvægt að sætta sig við það að stundum er lífið ekki sanngjarnt. Þú þarft ekki að sýna fram á að fólkið sem gerði á þinn hlut hafði rangt fyrir sér svo að það fái einhverskonar refsingu, eða að bíða þess að vera beðin afsökunnar. Lífið er því miður þannig að það gerist stundum aldrei. Lærðu af erfiðleikunum, því að stundum er lífið ósanngjarnt, og það fast ekki endilega svör við hvers vegna, en þú getur einbeitt þér að því hvernig þú getur lært af reynslunni og orðið betri manneskja í framtíðinni. Þú hefur stjórn á því hvað þú veltir þér upp úr eða hvað þú framkvæmir í reiði.

Sterkasta tilfinningin tel ég að sé ótti. Það er fátt jafn hamlandi og óttinn og það er margt í umhverfinu sem að við óttumst. Þú þarft að framkvæma til þess að losna undan ótta: Gerðu það sem þig hefur alltaf langað til þess að gera, því að jafnvel þótt að það floppi þá þarftu ekki að líta tilbaka og hugsa: „Hvað ef“. Talaðu við manneskjuna sem þú þarft að tala við um erfið málefni, hoppaðu í djúpu laugina. Talaðu við stelpuna/strákinn sem þú hefur áhuga á. Og smá saman minnkar óttinn eða hverfur með tímanum. Þetta snýst um að taka stjórnina og ýta sér í áttina að því sem hugurinn óskar.

Því meira stress og kvíði sem er í lífi okkar því mikilvægara er það að gæta að okkar tilinningalega heilbrigði. Að gera slíkt getur breytt lífi þínu alveg jafn mikið og líkamleg æfing.

Stefanía