Stefania skrifar Flokkað undir Menning & Listir.

Stefanía – Vertu ljósið í mykrinu

Það er mikið búið að ganga á þessa seinastliðnu daga. Ríkisstjórnin fallin, óheiðarleiki og leynimakk í hverju horni. Í ár er búið að koma hræðilega fram við fórnarlömb glæpa af allra verstu gerð og hjartað mitt brotnar við að heyra orðin „uppreist æru“.

Nú eru búnar að vera fréttir af þessum dómum, bréf og viðtöl og nóg af fólki að tjá sig um þessi mál á internetinu. Eins og flestir sem þekkja mig vita, þá tek ég hluti afskaplega nærri mér og að sjá þessar fréttir og sumt af því sem að fólk hefur látið út úr sér um þessi gífurlega viðkvæmu mál herjar þungt á sál mína.

Ég hreinlega get ekki skilið hvernig fólk getur verið svona illt.

Hvers vegna er þessi heimur sem við búum í, sem er svo fullur af yndislegum og fallegum hlutum einnig verið staður þar sem hlutir ímyndunaraflinu ljótari eiga sér stað? Þetta er líkalegast ein af elstu spurningum mannkyns og mér finnst afskaplega erfitt að hafa engin svör og enga lausn.

Það eina sem ég get gert er að reyna að vera betri. Að vera manneskjan sem réttir öðrum hjálparhönd og stendur með þeim sem bágt eiga. Að vera ein af þeim röddum sem kalla á réttlæti, stíga inn þegar ég verð vitni af ranglæti og vinna að því að vera alltaf til staðar.

Og þú sem ert að lesa þetta, ég bið þig um að gera slíkt hið sama.

Því þó svo að við getum ekki tekið illskuna í burtu þá getum við reynt okkar besta til þess að dreifa meiri kærleika.

Höfum samkennd og ást. Verum ljósið í myrkrinu. Stöndum saman gegn ranglæti og stöndum með þeim sem orðið hafa fyrir því. Reynum af fremsta megni að gera þennan heim að betri stað.

 

Stefanía