Stefania skrifar Flokkað undir Lífsstíll & Heilsa.

Stefanía – Vinna og áhugamál geta verið sami hluturinn

Það er ein spurning sem að ég fæ í hvert sinn sem að ég segi fólki að ég sé að læra trúarbragðafræði.

„Við hvað geturðu þá unnið?“

Ég skil þessa spurningu að vissu leiti því að jú, þetta er  sannarlega ekki algengt val og hvað þá á Íslandi.

Ég spurði mig sjálf að þessu þegar ég var að klára BA gráðuna mína, hvað ég gæti starfað við og afhverju ég væri að gera þetta. Hvort ég ætti kannski að taka masterinn í mannauðsstjórnun svo að ég ætti auðveldara með að finna vinnu.

Það sem breytti sýn minni á þetta var einn af kennurum mínum, sem gaf mér bestu ráð sem ég hef fengið á þessari skólagöngu. Hann sagði mér að hafa ekki svona miklar áhyggjur af þessu, að ef ég fylgdi hjartanu og gerði það sem ég elskaði að gera þá myndi það leiða mig á rétta braut. Þarna stóð virtur maður með doktorsgráðu, sem hafði ferðast um allan heim og gert ótrúlega hluti á því sviði sem að ég var að hugsa um að fórna vegna þess að ég óttaðist að eiga erfitt með að finna mér vinnu. Ég hef sjaldan verið jafn þakklát fyrir samtal.

Því að ég elska þetta nám. Þetta er fjórða árið sem ég eyði í háskólanum og ég hef notið mín hvern einasta dag. Ég er alltaf spennt að fara í skólann, ég er alltaf spennt að læra meira um þetta efni. Það er of fáir sem að geta sagt hið sama.

Þegar þú gerir eitthvað sem þú hefur brennandi áhuga á þá mun það leiða þig á rétta braut.

Sama hvað ég geri í framtíðinni (planið mitt er klárlega að verða næsti Reza Aslan) þá mun ég gera það sem ég elska. Því að þetta er það sem ég hef brennandi áhuga á. Ég verð kannski aldrei rík en tilhugsunin um að ég muni elska starfið mitt og gera líf mitt bjartara fyrir vikið skiptir mig mun meira máli.

Það hafa ekki allir kost á þessu, ég tala út frá gífurlegum forréttindum hvítrar stúlku á Íslandi sem hefur tækifæri til þess að mennta sig. En mér finnst þetta mikilvægt engu að síður.

Ekki láta aðra segja þér hvað þú átt að gera. Finndu hvar þitt áhugasvið liggur, hvað er það sem þú getur hugsað þér að gera það sem eftir er ævinnar?

Farðu svo og láttu drauma þína rætast.

Stefanía