Ritstjórn KRÓM skrifar Flokkað undir Matur & Vín.

Uppskrift: Ferskt pestópasta með spínati og avocado

Þetta pasta er alveg hrikalega gott og tekur alls ekkert of langan tíma að undirbúa.

Hér fyrir neðan er uppskrift að gómsætu pestópasta með spínati og avocado….

Það sem þið þurfið:

350gr af pasta, ég mæli með fusilli
smá salt (eftir smekk)
2 fullir bollar af niðurskornu fersku spínati
6-8 matskeiðar af tilbúnu basilpestói
1-2 matskeiðar af rauðvínsediki
1/2 teskeið af svörtum pipar
1/2 bolli af baunum að eigin vali, ég myndi velja pinto baunir
1 avocado

*Athugið! Gott er að skera niður avocadoið og spínatið á meðan að pastað er að sjóða*

1. Sjóðið vatn fyrir 350 grömm af pasta og saltið vatnið vel. Þegar vatnið er farið að sjóða, bætið pastanu út í og hrærið vel í pastanu til að byrja með. Þetta ætti að vera tilbúið eftir 8-12 mínútur.

2. Setjið spínatið í botninn á stórri skál, þegar pastað er tilbúið skuluð þið taka um hálfan bolla af vatninu af pastanu og leggja til hliðar. Hellið restinni af vatninu svo af pastanu og sturtið úr pottinum öllu pastanu yfir spínatið sem liggur í botninum. Hrærið vel saman…

3. Hellið pestóinu yfir blönduna þannig að pestóið þekji pastað alveg, hellið þessum hálfa bolla af vatni yfir til að fá léttari blöndu. Bætið 1 matskeið af rauðvínsedikinu við, hálfri teskeið af salti og hálfri teskeið af svörtum pipar.

4. Bætið baununum við blönduna og leggið avocado bitana yfir, smakkið til og bætið við restinni af saltinu, pipar og ediki eftir smekk.