Hýasintur eru dásamlega fallegar og tilheyra jólunum það er hægt að búa til fallegar skreytingar eins og þessar myndir sýna.
Hýasintur hafa lengi verið vinsælar sem jólablóm, oft notaðar í körfuskreytingar eða skálar. Einnig geta þær staðið sér í sérstöku hýasintuglasi þá ýmist með mold eða vatni. Ef setja skal hýasintur í körfu er best að nota mosa, og þétta hann vel að hýasintulauknum, síðan má nota einhverskonar greni með, köngla eða jólakúlur. Gott er þá að setja vír á greinina eða kúluna og stinga honum í laukinn. Það skaðar hann ekkert. Ef notuð er mold er hún aðeins sett upp hálfum lauknum. Ef þær eru settar í vatn eru til sérstök hýasintuglös þar sem lauknum er tyllt efst í glasið og vatnið er látið ná ca. 2 cm fyrir neðan laukinn, þannig teygja ræturnar sig að vatninu og ofan í það. Skal þá athuga að halda vatninu framvegis upp að helming rótanna. Ef vatn situr við laukinn sjálfan þá getur hann fúnað. Hýasintur, tilbúnar í potti eru til í nokkrum litum, hvítum, bláum og bleikum. ( Upplýsingar frá Garðheimum )