Jólaspjall
Við fengum hana Manuelu Ósk í létt jólaspjall.
Ertu jólabarn :
Ég er líklega eitt mesta jólabarn sem finnst á þessu landi og þótt víðar væri leitað. Jólin eru, án efa, uppáhaldstíminn minn.
Hvað er það besta við jólin :
Það er eitthvað svo mikill kærleikur í loftinu yfir jólin. Það er það besta. Samverustundir fjölskyldurnnar, góður matur – og svo tek ég líka jólaskreytingar mjög alvarlega – húsið mitt breytist í lítið jólaland.
Ertu með einhverjar jólahefðir :
Ég held í hefðirnar sem ég ólst upp við þegar kemur að jólamatnum – það er alltaf hamborgarahryggur í aðalrétt og möndlugrautur í eftirrétt. Möndlugjöfin er alltaf eitthvað sem fjölskyldan getur notið saman, eins og spil eða konfekt. Á Þorláksmessu er svo skötuveilsla hjá móðursystur minni – en það er hefði sem mér þykir mjög vænt um. Svo fá börnin alltaf að opna eina jólagjöf fyrir mat – en það er einmitt líka hefði sem ég ólst upp við (ég hef greinilega verið mjög óþolinmótt barn).
Ég hef þó líka skapað mínar eigin jólahefðir með mínum börnum – og sú sem stendur upp úr er sú að á aðfangadag förum við ekki í spariföt eins og oft tíðkast, heldur fáum við okkur alltaf jólapeysur á hverju ári. Þær eru oftast mjög ljótar, en skemmtilegar – og skapa skemmtilega og þægilega stemningu.
Hvað er á óskalistanum fyrir þessi jól :
Ég yrði alveg svakalega ánægð með falleg rúmföt og dagbók fyrir árið 2019, því það verður sko gott ár sem þarf að skipuleggja vel.
Uppáhalds jólamynd :
Ósanngjörn spurning fyrir jólabarn. Ætli ég verði ekki að segja Miracle on 34th Street því ég hef horft á hana á hverju ári síðan ég man eftir mér.
Uppáhalds jólalag :
Það er ekkert sem kveikir eins mikið jólablossan eins og All I Want for Christmas is You með Mariah Carey.
Ef þér stæði til boða að halda jólin erlendis hvaða land yrði fyrirvalinu og afhverju
Ég hef haldið jólin erlendis nokkrum sinnum. Ég myndi velja að halda þau aftur í Los Angeles, vegna þess að þar á ég svo marga vini sem eru nánast eins og fjölskylda.
Áttu jólaminningu sem þú vilt deila með okkur :
Ég man hvað mér fannst ég mikill meistari að fá alltaf möndluna, ár eftir ár. Það klikkaði bara ekki og innst inni setti ég einhverja svakalega merkingu í þessa afburði mína í möndlukeppninni. Það var því ákveðinn skellur þegar ég komst að því að amma og afi pössuðu alltaf að mandlan færi til mín – og öll fjölskyldan var með í þessu plotti – en ég var eina barnið í fjölskyldunni.
Uppáhalds jólasmákökurnar :
Spesíurnar hennar ömmu og góðar sörur (sem ég kann ekki að baka).
Hvaða lit tengir þú við jólin :
Rauðan
Hvað er í matinn hjá þér á aðfangadag :
Hamborgarahryggur, sykraðar kartföflur, Waldorf sallad og fleira meðlæti. Forrétturinn er breytilegur frá ári til árs – en eftirrétturinn er allta sá sami, möndlugrautur.
Skreytir þú mikið fyrir jólin :
Ég skreyti helst hvern einasta fermeter heima hjá mér. Ég elska að skreyta – en ég passa mig bara að byrja á því nógu snemma til að njóta sem lengst, því það er ekkert leiðinlegra en að taka skrautið niður og ganga frá því í janúar.
Hvað er must að eiga fyrir jólin :
Fjölskyldu sem nennir að eyða tíma með þér. Nei ok, að öllu gríni slepptu þá finnst mér eiginlega ekki must að eiga neitt sérstakt fyrir jólin, kannski bara nóg af kertum og góðan jóla-playlista.
Takk fyir spjallið Manuela